18.9.2009 | 20:40
Hernig ég vil nota atkvæði mitt í næstu kosningum til Alþingis
Ég var eitt kvöldið fyrir stuttu að dunda mér við að setja hugsanir mínar varðandi næstu kosningar á blað. Hér á eftir eru mínar hugrenningar um hvernig ég kem til að velja hver fær mitt atkvæði. Þetta er eitthvað svipað og hugrenningar mínar fyrir síðustu kosningar (í vor), en þá uppfyllti enginn listi þau meginatriði sem mér fannst skifta máli. Þó verð ég að viðurkenna að ég var nálægt því að kjósa Vg, en á lokasprettinum fannst mér þau tapa trúverðugleika og því skilaði ég auðu og þarf ekki að hafa slæma samvisku yfir því að hafa stuðlað að áframhaldandi völdum samfylkingarinnar í sinnu þriðju ríkisstjórn.
01. Ég vil ekki kjósa fólk sem ber ábyrgð á því samfélagshruni sem nú er viðloðandi á Íslandi.
02. Ég vil ekki kjósa fólk sem ber ábyrgð, beint og eða óbeint á bankahruni. Með óbeinni ábyrgð á ég við fólk sem vissi hvað var í vændum strax á fyrrihluta ársins 2008 en gerði ekkert og varaði almenning ekki við.
03. Ég vil ekki kjósa fólk sem treystir sér ekki til að stjórna á Íslandi en vill þess í stað koma stjórn landsins undir erlend yfirráð að nýju.
04. Ég vil ekki kjósa fólk sem vill koma á kerfi samtryggingar í fyrirtækjarekstri á Íslandi s.b.r. þjóðarábyrgð á skuldum einkafyrirtækja og ríkisyfirtöku rekstrar sem kominn er í þrot.
05. Ég vil kjósa fólk sem vill og getur stjórnað á Íslandi með hag alls almennings í huga.
06. Ég vil kjósa fólk sem gerir sér grein fyrir hvað þarf að gera til að svokölluð stjórnvöld (Alþingi og ríkisstjórn) nái völdum í þjóðfélaginu að nýju.
07. Ég vil kjósa fólk sem sér sjálfbærni sem kost en ekki afdalamennsku.
08. Ég vil kjósa fólk sem vill samskipti og viðskipti við öll sjálfstæð og fullvalda ríki en ekki loka Ísland inni í bandalagi tollmúra og viðskiptahindrana ESB.
09. Ég vil kjósa fólk sem setur manngildi ofar auðgildi.
10. Ég vil kjósa fólk sem vill binda í Stjórnarskrá þjóðareign á öllum auðlindum Íslands, á, undir og yfir landi, vatni og hafi.
11. Ég vil kjósa fólk sem vill að einstaklingsfrelsi sé algjört að því tilskildu að ekki sé vegið að frelsi annarra einstaklinga, hér á ég t.d. við algjört félagafrelsi og trúfrelsi. Ekki má skylda nokkurn mann til að tilheyra ákveðnu stéttarfélagi, stjórnmálafélagi, íþróttafélagi, trúfélagi eða nokkru öðru félagi.
12. Ég vil kjósa fólk sem vill stefna að fullum aðskilnaði Alþingis, Framkvæmdavalds og Dómsvalds.
Eins og sést þá gerir þessi upptalning mér mjög erfitt fyrir að velja lista til að styðja í næstu kosningum, ég fæ ekki betur séð en að allir listar (flokkar, hreyfingar og vinalausir) á Alþingi í dag fái ekki mitt atkvæði. Mín eina von er að fram komi nýr listi sem stendur að mestu eða öllu leiti undir mínum væntingum og ég get fundið samsvörun með mínum hugmyndum um mannvænt þjóðfélag.